154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér líður stundum eins og við hv. þingmaður séum með áhyggjur af hér um bil sömu atriðum í þessu máli, bara dálítið úr sitthvorri áttinni. Þannig deili ég með honum áhyggjum af skilyrðum fyrir afturköllun leyfa vegna þess að mér finnst þau vera of óljós, mér finnst ekki vera nógu skýrt hvað þurfi til þess að hægt sé að stíga skrefið til fulls. Við þekkjum það í samskiptum opinberra eftirlitsaðila við stórfyrirtæki að stórt fyrirtæki með burði til að ráða sér öfluga lögmenn geti staðið í vegi fyrir alls konar stjórnvaldsaðgerðum ef eftirlitsaðilinn er veikur á móti. Sama þekkjum við náttúrlega úr því hvernig þessi litlu sveitarfélög fyrir vestan t.d. — ja, það er aflsmunur á því þegar þau eiga í samningaviðræðum við fiskeldisfyrirtækin til að mynda varðandi aðstöðugjöld í höfnum.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann af því að hann vék t.d. að efasemdum sínum um 7. gr. varðandi friðunarsvæði. Þar er ég nú hjartanlega ósammála þingmanninum vegna þess að mér finnst hugmyndin um friðunarsvæði vera tilraun til ákveðinnar sáttar milli verndar og nýtingar, sem við þekkjum annars staðar frá. En mig langar að spyrja, vegna þess að það eru nokkur atriði þar sem hv. þingmaður er greinilega með bara nokkuð skýra, efnislegan fyrirvara við þetta mál: Eru þetta fyrirvarar sem þingmaðurinn eða einhver hópur þingmanna innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins gerðu með formlegum hætti við málið? Er þetta mál lagt fram með fullum og óskoruðum stuðningi þingflokks Sjálfstæðisflokksins eða eru þarna atriði sem talin hafa verið upp sem þingflokkurinn gerir fyrirvara við? (Forseti hringir.) Og þá nefni ég kannski sérstaklega þetta varðandi friðunarsvæði og bráðabirgðaákvæði II sem hv. þingmaður nefndi og síðan það (Forseti hringir.) hversu heitir Sjálfstæðismenn eru varðandi tímabundið versus ótímabundið.